• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Upphaf fastrar verslunar á Borgarfirði

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

„Fyrstu drög til verslunar hér á Borgarfirði voru þau, að um jólin 1891 kom Gísli Hjálmarsson [frá Brekku í Mjóafirði] hingað landveg frá Norðfirði og hafði Einar Jónsson frá Hvannstóði fyrir fylgdarmann. Gistu þeir í Höfn hjá Þorsteini Magnússyni  en voru við Desjarmýrarkirkju á jóladag. Eftir messu átti Gísli tal við bændur um það hvort þeir vildu skifta við sig, ef hann setti upp verslun hér á Borgarfirði. Fékk hann hinar bestu undirtektir með það, og hélt  heimleiðis eftir jólin. Á útmánuðum þennan sama vetur lét Gísli grafa fyrir kjallara að verslunarhúsi og hlaða hann upp, þar sem Rauðiskúrinn var síðar reistur skammt frá Voginum neðst í Bakkagerðisþorpi. En ekkert timbur kom það vor né heldur næsta vor og ekkert gerðist í þessu verlunarmáli fyrr en vorið 1894. Kom þá Þorsteinn Jónsson, síðar nefndur borgari, hingað róandi frá Norðfirði við annan mann, Ólaf Gíslason, og ráðskonu. Eftir að þeir félagar höfðu fengið sér hressingu og hvílt sig lítið eitt eftir róðurinn fór Þorsteinn í göngutúr meðfram sjónum til að kynna sér alla staðháttu. Voru nokkrir Borgfirðingar í fylgd með honum og spurðu hann, hvort honum litist ekki vel á plássið og sveitina, því veður var hið fegursta og hiti mikill. En hann gaf lítið út á það fyrr en hann settist niður á kjallaragrunninn sveittur og móður af göngunni. Varð honum þá þetta að orði: „Gott má það vera, en ekki líst mér á það.“

Um vorið byggði hann fyrsta verslunarhúsið hér á kjallaragrunninum, sem hann hafði þá keypt af Gísla Hjálmarssyni. Setti hann hér upp verslun í Rauðaskúr og rak hana til ársins 1907, að hann seldi hana Thor E. Thulinius stórkaupmanni í Kaupmannahöfn og fluttist héðan til Seyðisfjarðar.

Flest árin sem Þorsteinn verslaði hér var Eiríkur Sigfússon, tengdasonur Sigurðar Jónssonar frá Gautlöndum,  verslunarstjóri hans, utan árin 1899-1901 sem Sveinn Ólafsson síðar alþingismaður í Firði í Mjóafirði var verslunarstjóri  við verslun hans. Þosteinn Jónsson var athafnamaður mikill og áhugasamur um framfaramál sveitarinnar. Rak hann útgerð hér öll sumurin sem hann hafði verslun á Borgarfirði. Fyrsta sumarið gerði hann út 3 báta og voru Ólafur Gíslason frá Norðfirði og Magnús Sigurðsson frá Fossi formenn á tveimur þeirra. ...“

 (Kaflinn hér á undan er tekinn úr óprentuðu handriti séra Vigfúsar Ingvars Sigurðssonar á Desjarmýri í tilefni af 50  ára afmælis Bakkagerðisþorps, en handritið er í vörslu undirritaðs. Þar segir nokkru nánar frá upphafi fastrar verslunar á Borgarfirði en í Sögu Borgarfjarðar eystra).

 

Borgarfjörður eystri

top_logo2

Kortasjá Loftmynda hf.

kortasja

Vefmyndavél við höfnina

vefmynd