• An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow
  • An Image Slideshow

Nokkrar sögur af Hafnarbræðrum, Hjörleifi og Jóni, Árnasonum

Senda í tölvupóst Prentvæn útgáfa Skoða sem PDF skjal

Heimild: Sigfús Sigfússson Íslenskar þjóðsögur og Sagnir VI. bindi Rvík. 1986: 

Morgunmatur Hafnarbræðra: Sjálfrunnið hákarlalýsi og hákarlsbiti.

„Næstu árin eftir Skaftáreld svonefndan,1783, varð víða bjargarþröng, sem kunnugt er. Sparði Árni þá eigi fæðuföng sín við nauðstadda og sat því sjálfur í skorti. Synir hans voru þá um tvítugsaldur og orðnir sægarpar miklir. Þá er sagt að það væri oft aðalfæða þeirra áður þeir reru að súpa sér sleif af sjálfrunnu hákarlalýsi úr lifrarköggum föður síns og taka sér hákarlsbita með. Síðan brögðuðu þeir eigi mat fyrri en heim kom. Þessa lýsisnautn juku þeir allt að hálfri mörk og er sagt að þeir neyttu þess loks eins lostugt og nýmjólk væri. Þeir þoldu manna best sult og átu manna mest þegar svo bar undir, einkanlega fiskafla, ket og nýmjólk. Þeir sóttu sjó af kappi en unnu lítið í landi. Löngum æfðu þeir aflraunir og íþróttir.“ 

Bjarga bröndunum eða brýna skelinni.

„ Þeir bræður stunduðu hákarlaveiðar á lagvað og öfluðu löngum vel. Einu sinni sem oftar höfðu þeir sjóhlaðið bátinn. Þegar að landi kom heyrðu menn að Jón sagði: „Hvort viltu heldur bjarga bröndunum eða brýra skelinni?“ „Bjarga þú bröndunum ,“ sagði Hjörleifur, „ég skal sjá um skelina.“ Síðan kippti Jón hákörlunum á land en Hjörleifur bar bátinn á stöfnum upp undir bakka. Er mál manna að þetta bæri oftar til.“

Hélt sporði hákarlsins í handarkrikanum.

„Annað sinn bar svo til að þeir drógu fullorðinn hákarl á  hafmiði því er heitir Tindaröst. En þeir höfðu gleymt ífærunni heima. Hjörleifur brá sporði hákarlsins í handarkrika sinn og hélt honum svo á meðan Jón reri að landi.“ 

Baggaburðurinn.

„Eitt vor sem oftar varð bjargarþröng í Borgarfirði svo að margir voru að þrotum komnir með matföng.  Er svo að skilja að Hjörleifur [Þorsteinsson prestur á Desjarmýri 1790-1800] væri þá  enn að Desjarmýri. Þá var eigi nær kornbjörg að fá en niðri á Reyðarfirði. Kom Borgfirðingum saman um það að leita þangað. Hafnarbræður voru þar fremstir í flokki að vanda. Segja sumir að þeir færu með hesta. En hvort sem þeir fóru  á bát eða með hesta þá rak niður snjókyngju nóttina eftir að þeir komu ofan yfir svo þeir hlutu að skilja þar eftir hestana og þeir aðrir Borgfirðingar er voru í förinni. Og eigi var fært á sjó heldur. Þeim kom saman um það að brjótast  upp yfir því bjargarlítið  var heima. Þeir bræður vildu eigi gera ónýta ferðina. Þeir lögðu þá sinn mjöltunnusekkinn hvor á bakið og bætti Jón þó við kvartili er hann bar í fyrir. Sumir segja brennuvínsandkerinu [svo]. Svo þrömmuðu þeir upp Tungudal og komu að Þuríðarstöðum og báðu um að drekka. Húsfreyja færði þeim súrmjólk í pottkönnu og rétti Jóni. Hann segir: „Þetta er ekki minn drukkur, veslingur. Áttu ekki lýsisdropa?“ „Jú,“ svaraði konan og brosti lítið er hún fór inn. Að vörmu spori kom hún með fulla könnuna af lýsi. Jón renndi hana í botn og sagði: „Þetta er minn drukkur, veslingur. Guð launi þér hann.“ Konan færði svo Hjörleifi lýsi í könnunni. Gerði hann því sömu skil og þakkaði fyrir á sama hátt. Eftir þetta segir ekki af ferðum þeirra fyrri en þeir komu heim með „skjattana.“ Litlu seinna  er sagt að leiði hafi batnað svo að þeir gátu náð hestunum. Það er haft eftir Hjörleifi að hann hafi sagt svo frá að á meðan þeir slóruðu hafi hann látið sinn bagga hvíla á bæjarveggnum en Jón staðið og hallast fram á staf sinn.“

(Sigfús Sigfússon: Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI. bls.255-256).                                                                                     

 

Borgarfjörður eystri

top_logo2

Kortasjá Loftmynda hf.

kortasja

Vefmyndavél við höfnina

vefmynd